18.6.2007 | 23:49
Köttur útí mýri, sett'uppá sig stýri - ... úti er ævintýri!
Jæja vinir og vandamenn nær og fjær.. við stöllurnar erum komnar til landsins heilar á húfi og sprelllifandi :)
Þegar leiðir okkar skildu síðast vorum við í afslappelsi á Mombasa, liggjandi á hvítri strönd með útsýni yfir Indlandshafið og hafgoluna leikandi við bíkíniklædda kroppana. Okkur til mikillar gleði var boðið upp á skemmtiatriði á ströndinni en nágrannar okkar á Mombasa sáu um þann part af prógramminu. Hópurinn samanstóð af 6 nunnum, tveimur karlmönnum og litlum svörtum dreng sem þau voru með undir sínum verndarvæng. Nunnurnar voru afskaplega heillaðar af sjónum og eyddu heilu og hálfu dögunum busslandi í honum í fullum nunnuklæðaskrúða (kjólar, höfuðklæði og bara allur pakkinn), með risastóra gúmmíkúta um sig miðja. Það var alveg frábært að fylgjast með þeim velkjast um í Indlandshafinu eins og korktappar - skríkjandi, hlæjandi og gólandi af kátinu já þær kunnu sko sannarlega að meta hafið. Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið einn daginn þegar við lágum í mestum makindum og hálf meðvitundalausar af leti því eins og hendi væri veifað kom eitt stykki nunna á harðahlaupum fram hjá okkur eins og hún ætti lífið að leysa og endaði þessi hlaupatími hennar að sjálfsögðu í sjónum með tilheyrandi gleði eins og nunnunum einum er lagið. Reyndar fór mestur tíminn hjá okkur að velta fyrir okkur hvernig karlarnir tengdust nunnunum og hvernig barnið kom svo inn í myndina.. en við komumst ekki að neinni niðurstöðu um það málið uppástungur eru vel þegnar.
Dvölin á Mombasa var kærkomin hvíld fyrir sálartetrin okkar og nauðsynlegur tími til þess að hlaða batterín sem voru alveg á síðustu dropunum. Mikilvægustu ákvarðanirnar sem maður þurfti að taka á daginn voru hvenær maður ætti að snúa sér við í sólbaðinu eða hvort maður ætti að fá sér kók eða bjór með matnum . Ekki slæmt. Fyrir utan að liggja í sólbaði og gösslast í sjónum tóku nokkrar sig til og kíktu á mannlífið í Mombasa og versluðu inn í búið því eitthvað þurftum við jú að borða og drekka J Einnig fóru allir nema ég (Helga) og Lilja í vatnasafarí á bát sem hékk saman á lyginni einni saman (eins og Elva myndi orða það).. og þetta varð hin mesta svaðilför þar sem sjórinn var eitthvað geðillur og lét öldurnar skella á bátsgreyinu sem var kannski ekki alveg í stakk búinn til þess að þola geðvonskukastið. Stelpunum var hætt að lítast á blikuna á tímabili og var þá öllum hent í björgunarvesti og Þórey ákvað nú að taka enga sénsa og skellti sér í blöðkurnar til þess að vera alveg örugg. Á þessum tímapunkti voru að mér skildist flestir orðnir vel grænir í framan af sjóveiki og vanlíðan. Sassalaggabimm. En allt fór þetta vel að lokum og stúlkurnar skemmtu sér vel snorklandi meðal furðufiska og vatnavera. Ferðin var svo fullkomnuð með girnilegu sjávarréttarhlaðborði þar sem þær létu til sín taka.
Eitt kvöldið var okkur svo boðið heim til eiganda húsanna á ströndinni en hann heitir Fransic og er algjör viskubrunnur karlgarmurinn. Hann leiddi okkur út um allt hús, sýndi okkur myndir og sagði sögur af því sem á daga hans hafði drifið á milli þess sem hann bauð okkur drykki, kókoshnetur og mango mmmmmm ekki leiðinlegt.
Lifið á Mombasa var sérlega yndislegt þar lifðum við nokkurn veginn í sátt og samlyndi við aðra íbúa hússins sem voru aðallega eðlur, köngulær, risastór svört margfætlukvikindi með rauða fætur sem spýttu út úr sér húðertandi efni og síðast en ekki síst okkar elskulegu moskítóflugur en þeirra verður sárt saknað þegar heim á klakann er komið ( .. eða ekki) Hins vegar var einn minnihlutahópur á heimilinu sem fékk heldur slæma útreið en það voru blessuðu kakkalakkarnir. Stína tók hamskiptum og tók að sér að vera skordýrabani hópsins. Það er ekki hægt að segja annað en að stelpan hafi lifað sig inn í hlutverkið, kellan var í viðbragðsstöðu og með spreyið á lofti næstum því alla ferðina og kakkalakkarnir áttu ekki roð í hana. Hún gæti sko vel gefið út leiðavísi (Hvernig drepa skal skodýr á augnabliki) heima eftir þessa skordýradrápsreynslu sína enda búin að stúddera hreyfingar og hugsunarhátt skordýranna í þaula í Mombasa.
En allir hlutir taka enda, bæði góðir og slæmir, og kom því sú stund að við þurftum að taka saman föggur okkar og halda af stað heim til Nairobi með FLUGVÉLINNI (nema Kolla sem fór með rútunni ásamt vini okkar). Við ákváðum að vera assgoti jákvæðar og gefa flugfélaginu annan séns en viti menn seinkun, seinkun, seinkun.. sem gerði okkur fremur húmorslausar og gerði það ennfremur að verkum að við lentum ekki í Nairobi fyrr en um miðnætti.(.. en við lentum þó sem er jákvætt). Þegar við reyndum að fá útskýringar á því af hverju vélin var svona sein var fátt um svör. Við reyndum þá að segja þeim að við vildum vita ef vélin væri eitthvað biluð því við hefðum verið hætt komnar fyrr í vikunni þegar vélin sem við hefðum flogið með hefði bilað og við næstum dáið..en þá var nú bara hlegið að okkur og sagt að atvikið hefði nú bara verið minor technical problem.. HA? HEYRÐUM VIÐ RÉTT? MINOR TECHNICAL PROBLEM!!!!! Þetta var nú bara háspenna lífshætta fyrir okkur!
En þegar flugið okkar varð ,,loksins,, ad veruleika heyrðist varla bofs í okkur alla leiðina.. allir voða uppteknir við að lesa bækur eða dunda sér í einhverju öðru en í raun vorum við flestar assgoti skelkaðar enda skildi hin margrómaða örlagaríka flugferð eftir sig blett á sálinni... við vorum því afskaplega glaðar og hamingjusamar þegar við lentum loksins í Nairobi sprelllifandi og sólbrúnar
Daginn eftir, 15. júni, var komið að heimferð. Dagurinn fór mestmegnis í að klára að verlsa það sem átti eftir að versla og gera það sem átti eftir að gera. Við náðum flestar að kaupa aðeins meira til þess að setja í ferðatöskurnar sem máttu þó ekki við því vegna yfirþyngdar J. Lilja, Kolla, Elva og ég eyddum fyrri part dagsins á bjútísaloninu þar sem hárið á okkur var fléttað og neglurnar snyrtar og ég veit ekki hvað og hvað. Elva greyið sat samt lengst af okkur öllum enda var hún að láta flétta alla kolluna á sér (og bæta við gervihári) og það er ekki hægt að segja að stúlkan sú sé þunnhærð Í 6 eða 7 tíma sat hún og kvaldist vegna hártogs enda voru 3 konur settar í fléttuverkið svo því yrði nú lokið fyrir næstu aldamót já, það er segin saga að bjútí is pain!! Um kaffileytið hittumst við allar á Java (nema Elva sem var ennþá í pyntingartímanum) og þar fékk ég óvænta afmælisveislu frá stelpnunum (ég fæddist víst þennan dag fyrir 24 árum síðan). Þær höfðu látið skrifa TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN HELGA á upphalds súkkulaðikökuna mína á Java og sungu svo fyrir mig afmælissönginn með því tilþrifum og englaröddu.. jii, ég varð nú aldeilis hlessa og glöð yfir þessari uppákomu. Eftir að hafa troðið í okkur kökunni, sem var nógu stór og mikil til þess að fæða heilan her, mættu Linette og hinar barnapíurnar frá NAKURU á svæðið og höfðu þær með sér sérsaumuðu kjólana okkar sem við höfum pantað í Nakuru. Við spjölluðum við í smá stund og kvöddum svo enda margt sem átti eftir að gera á allt of stuttum tíma.
Klukkan hálf sjö var komið að síðustu kvöldmáltíðinni sem við eyddum á hóteli nokkru (.. og þar var sko gott að borða) ásamt læknanemahópnum sem er úti núna ( Harpa, Helga og þær), norsku læknanemapari og síðan kom hann Jonah kallinn og kvaddi okkur. Þar fékk ég þennan líka fína, áletraða bikar í afmælisgjöf frá stelpunum þær höfðu farið á markaðinn og prúttað um bikarinn.. þetta kunna þær stelpurnar.. J Síðan var brunað aftur til baka í Upphæðir til þess að sækja allt okkar hafurtask enda styttist óðum í flugferðina löngu. Upphæðir og starfsfólk þess var svo kvatt með tregatárum enda er staðurinn búinn að vera heimili okkar síðasta mánuðinn. Eftir myndatöku með Upphæðastaffinu og dramatíska kveðjustund náðum við með einhverju stórfurðulegu kraftaverki að troða okkur og farangrinum í einn sendiferðabíl - reyndar sátum við kramdar eins og sardínur í dós og það hefði ekki komist eitt rykkorn til viðbótar í bílinn J en þröngt mega sáttir sitja og við lifðum bílferðina á flugvöllinn af
Flugferðin til London gekk bara nokkuð vel. Reyndar var þotan svo hrikalega stór sem við flugum með að biðsalurinn fyrir flugið minnti einna helst á Þjóðhátið í Eyjum slíkur var mannfjöldinn í salnum. Flugið sjálft var alveg ljómandi ágætt hristingur hér og þar en það fylgir víst bara. Í London skildu svo leiðir, ég fór heim til Íslands með hádegisfluginu en hinar dömurnar eyddu deginum í London og tóku kvöldflugið heim. Við lentum allar í töluverðu brasi við að tékka okkur inn enda var yfirþyngdin heldur mikil en stelpurnar brugðu þá bara á það ráð að klæða sig í fötin til þess að létta á ferðatöskunni þetta snýst allt um að redda sér!!! J
Við viljum þakka öllum sem hafa fylgst með okkur í Kenya kærlega fyrir það hefur bæði komið okkur á óvart og verið okkur mikils virði að sjá hve margir fylgdust með ævintýrum okkar og hafa commentað á síðuna. Við urðum vitni af hræðilegum mannréttindarbrotum og það var erfitt að horfa upp á alla þá fátækt og eymd sem margt fólk býr við þarna úti. En við sáum líka sitthvað gott og jákvætt og lærðum án efa að meta það sem við eigum svo miklu miklu betur eftir þessa dvöl okkar úti - það að hafa rennandi ferskt vatn, hrein föt, stað til þess að sofa á og fá næringu í kroppinn er eitthvað sem ekki er sjálfsagt og sjálfgefið. Við munum búa að þessari reynslu um aldur og ævi og hún mun klárlega koma sér vel í náminu okkar og hjúkrunarstarfinu í framtíðinni.
Við viljum líka þakka styrktaraðilum okkar, sem gerðu ferðina að veruleika, innilega fyrir hjálpina. Takk, takk, takk.
Að lokum viljum við þakka öllum þeim sem lögðu okkur lið við sjúkrabílasöfnunina þið eigið hrós og heiður skilið. Sjúkrabílakaupin munu skýrast á næstu dögum og við munum láta ykkur vita með gang mála þannig ekki hætta að kíkja hérna inn.. við ætlum að halda síðunni gangandi þar til sjúkrabíllinn er kominn í hús J
Takk fyrir allt, hafið það gott, elskið hvort annað og njótið sumarsins,
Fyrir hönd Hjúkrun í Kenya,
Helga
Athugasemdir
Jæja loksins komnar heim (og heimtar úr helju..) Það er örugglega frábært að hafa haft tækifæri til að láta gott af sér leiða og sjá eitthvað nýtt, enn guði sé lof að þið euð komnar heim heilar á höldnu.
"heimskur er heima alinn maður" sagði einhver staðar hið forna og svona ævintýri víkkar óneitanlega sjóndeildarhringinn.
Þið eruð allar frábærar og hafið enn og aftur staðið ykkur eins og hetjur.
Pistlarnir hafa verið fræðandi og skemmtilegir...
Bíð bara spennt eftir myndasjóvi og frásögn af ferðalaginu...
Þóra, Lilju sys
Þórhildur (IP-tala skráð) 19.6.2007 kl. 11:23
Sælar stelpur!!
Ég er buin að fylgjast með síðunni ykkar síðasta mánuðinn og verð bara að segja....vá !! Frábært hjá ykkur að drífa ykkur út og vinna þessi góðverk!!
Æðislegt að leyfa okkur hinum lika að fylgjast með ;)
Ókunnug (IP-tala skráð) 19.6.2007 kl. 16:10
Já takk fyrir okkur! Það er alveg frábært hvað margir fylgdust með ævintýrum okkar og vonandi hafa lesendur okkar fengið tilfinningu fyrir upplifun okkar í gegnum lesturinn. Síðan ég kom heim hef ég oft fengið spurninguna: Var ekki æðislegt í Kenya?" Lærdómsríkt væri nær í lagi, æði nær ekki yfir slæma upplifun sem fylgdi óneitanlega þessari ferð. En það er erfitt að útskýra og segja frá þegar heim er komið enda ekki hægt að setja sig í þessi spor nema hafa farið á svipaðar slóðir og fundið lyktina..þó ekki væri nema það.
En með nunnurnar! Þær minntu okkur soldið á Amish, klæðnaðurinn og það! En ég held að það sé enn langt í að Amish skelli sér í orlof til Afríku,) Þær ferðuðust með gallabuxnaklæddum prestum í sendiferðabíl sem var merktur 'Jesus fellowship' í bak og fyrir..ég náði nokkrum góðum myndum af þeim svamlandi í fullum skrúða í fjöruborðinu. Yndislegt að fylgjast með þeim! Svo skilst mér að sjórinn hafi verið geðvondur daginn sem farið var að snorkla..en úfinn sjórinn átti ekki roð í Íslendingana sem skelltu sér í vesti og blöðkur, tilbúnir að synda síðasta spölinn!
En annars, takk fyrir okkur! Við verðum með fyrirlestur í HÍ í haust þar sem við förum yfir ferðina. Vonandi sjáið þið ykkur fært að mæta sem flest. Við skellum dagsetningunum hérna inn þegar nær dregur..
Brennda Þórunn
Liljan (IP-tala skráð) 20.6.2007 kl. 10:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning