Fyrir ári síðan, þann 16. júní 2007 sneru hjúkrunarnemar aftur heim frá Nairobi eftir að hafa unnið þar með hjálparsamtökunum Provide International. Þessi ferð var farin af 8 stelpum sem lokið höfðu 2. ári í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Allar áttu þær sér þann draum að ferðast til fjarlægra landa og nýta nám sitt til vinnu meðal fátækra. Þessi ferð var draumur sem varð að veruleika fyrir tilstilli margra góðra aðila. Þetta var dýr ferð og ólaunuð vinna og var því víða leitað eftir styrkjum. Þessi leit bar árangur og fengum við góðar viðtökur víða. Reyndar gekk söfnunin það vel að þegar gengið hafði verið frá flugi, gistingu og bólusetningum var afgangur. Hluta þess nýttum við í kaup á blóðsykurmælum auk strimla sem vantaði áþreifanlega á heilsugæslustöðvarnar ytra. Enn voru eftir peningar og var tekin ákvörðun um að geyma þá þar til út væri komið svo við gætum metið þörf stöðvanna eftir tækjabúnaði/menntun starfsmanna. Það fór svo á þá leið að stuttu eftir að við komum utan og hófum störf með samtökunum að ljóst var að það sem helst vantaði væri sjúkrabíll. Samtökin áttu gamlan bíl sem var heldur hrörlegur að sjá og sjaldnast gangfær. Ástandið í fátækrahverfunum er þannig að heilsugæslustöðvar Provide sinna öllum íbúum þess en sjúkrabílar sem tilheyra sjúkrahúsum Nairobi neita að fara inn í hverfin þar sem hverfin eru talin of hættuleg. Það voru því mörg mannslífin sem höfðu týnst vegna skorts á fararskjóta þegar einstaklingar þurftu meiri og sérhæfðari aðstoð en þá sem stöðvarnar höfðu upp á að bjóða. Þó okkur þætti sjóðurinn digur var hann ekki nægur til kaupa á farartæki sem þessu. Við biðluðum því aftur til fólks, og þá á bloggi sem haldið var úti á meðan ferðalaginu stóð, um aðstoð til að fjárfesta í bíl. Svörin létu ekki á sér standa og sjóðurinn óx hratt. Í millitíðinni áttum við fund með forstjóra bílafyrirtækis sem ákvað í kjölfar fundar okkar að endurnýja sjúkrabíl fyrirtækis síns og gaf samtökunum notaðan sjúkrabíl sem var í ágætu standi. Við höfðum því fengið ágætan bíl en mikið keyrðan. Töldum við þá vænlegt að halda söfnun áfram og freista þess að kaupa nýrri og dýrari bíl. Í ljósi þeirra atburða sem áttu sér stað í Kenya síðastliðinn vetur þar sem miklar óeirðir brutust út í kjölfar forsetakosninga varð þörfin á öðrum sjúkrabíl enn ríkari svo ákvörðun var tekin um að kaupa sjúkrabíl, ódýrari en við höfðum ætlað í upphafi. Því keyra nú tveir sjúkrabílar undir merkjum íslenskra hjúkrunarfræðinema sem keyptu þá sem stoltir sendiboðar þjóðar sinnar. Þessir tveir sjúkrabílar sinna þúsundum manna og hafa margsannað notagildi sitt.
Okkur langar með þessu bréfi að þakka öllu því góða fólki sem tók beiðni okkar vel og styrktu til þessarar farar. Fjárstyrkir, styrkir í formi hjúkrunarvara, flutningaþjónusta, bóluefni og flíkur; Takk fyrir okkur! Starfsfólk Landspítala sem aðstoðuðu okkur og sýndu okkur ótrúlega þolinmæði auk þeirra frábæru einstaklinga sem deildu eigin reynslu frá sínum ferðum með okkur eiga miklar þakkir skilið fyrir. Þið gerðuð okkur kleift að fara þessa ferð og það með einhverja hugmynd um það hvað við vorum að fara út í.
Ef ekki væri fyrir ykkur, sem trúðuð á okkur og sýnduð það í verki, hefði þessi för ekki verið farin. Við lögðum upp með draum, þið létuð hann rætast.
Hjúkrun í Kenya skipa:
Elva Dögg Valsdóttir
Halldóra Ögmundsdóttir Michelsen
Helga Guðmundsdóttir
Hlín Árnadóttir
Kolbrún Sara Larsen
Kristín Þórhallsdóttir
Lilja Þórunn Þorgeirsdóttir
Þórey Rósa Einarsdóttir
Fyrir hönd okkar allra; Kærar þakkir.
Lilja Þórunn Þorgeirsdóttir
Nemi við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands
Athugasemdir
Gaman að fá fréttir af sjúkrabílakaupunum, og enn skemtilegra að þeir hafi að lokum orðið tveir :)
Kittý Sveins, 18.9.2008 kl. 22:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning