Afdrifaríkur dagur

Í dag eftir ánægulegan morgun í handlæknisfræðiprófi hittumst við í kjallaranum hjá Hlín þar sem hjúkrunavörulagerinn okkar er. En fyrir þá sem ekki vita þá höfum við fengið í kring um 200kg af hjúkrunarvörum til að taka með okkur út til að afhenda heilsugæslustöðvum Provide í Kibera. Það má m.a. nefna gifs, fæðingarhaka, barkaslöngur, hanska, ýmsar tegundir af sáraumbúðum, barnaskyrtur og það mætti telja endalaust. Þetta fór í tæplega 40 kassa (þökkum kassagerðinni fyrir þá) og tekur upp heilt herbergi í kjallaranum hjá Hlín.

Þetta verður sent út á undan okkur í byrjun næstu viku af öðlingunum hjá DHL og megum við eiga von á því að fá þetta til okkar nokkrum dögum eftir að við komum. Annars brá okkur öllum í brún áðan þegar við komumst að því að við erum að fara út á fimmtudaginn í næstu viku. Öll þessi undirbúningsvinna tekur á enda og aðalmálið byrjar. Síðustu mánuðir hafa einkennst af símtölum, e-mailum, bólusetningum, ótrúlega skemmtilegum fundum og síðustu metrana neyðumst við að hafa nefið á kafi í skólabókum; bara 2 próf eftir Grin

Áður en allt var komið í kassa og bakhlutinn á Elvu.

Helga, Þórey og Lilja að stafla kössum.

-Halldóra


Um okkur

Við erum 8 hjúkrunarfræðinemar á leið til Kenya, í Afríku í sjálfboðaliðastarf nú í mai 2007. Við munum starfa á fimm mismunandi heilsugæslustöðvum í fátækrahverfum í Nairobi í þrjár vikur. Allt í allt verða þetta 4 vikur þar sem við munum nota síðustu vikuna til þess að ferðast.

Við munum fara á vegum Kenya-project sem hefur verið starfandi í nokkur ár. Kenya-project átti upptök sín meðal norskra læknanema en er nú orðið samnorrænt læknanemasamstarf á vegum Alþjóðasamtaka læknanema (IFMSA). Þarna verðum við að vinna á heilsugæslustöðvum sem reknar eru af hjálparsamtökum heimamanna, Provide International. Við erum þeir fyrstu sem fara á vegum þeirra sem hjúkrunarfræðinemar frá Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Vonumst við með okkar þátttöku að við munum hvetja aðra úr hjúkrunarfræðideildinni til þess að feta í okkar spor. Munum við síðan fylgja ferðinni eftir með fyrirlestrum og kynningu á starfinu.

Heimasíða Kenya-project er http://www.kenya-project.org.

Við stundum nám í Hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Við erum allar að klára annað árið nú í vor. Þegar við tókum þá ákvörðun að fara saman þá vorum við allar sammála um að þetta væri gamall draumur. Við höfum allar mikinn áhuga á öllu sem tengist náminu og gefst okkur þarna tækifæri til að láta gott af okkur leiða á sama tíma og við öðlumst ómetanlega reynslu á sviði fræðigreinarinnar. Þarna munum við sjá og upplifa nýjan menningarheim, nýjar aðstæður, óvenjuleg sjúkdómstilfelli sem við munum líklega aldrei verða vitni að hér heima. Jafnframt tekst okkur að leggja okkar af mörkum við að hjálpa íbúum í þróunarlöndunum sem búa við slæmar aðstæður bæði með því að vinna á staðnum, flytja út vörur og styrkja kaup á hinum ýmsa búnaði sem þörf er á til að reka heilsugæslustöð.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband